Um Miðgarð

Félagsheimilið Miðgarður var byggt á árunum 1963-1967, en hafði þá undirbúningur byggingarinnar staðið frá 1957 og raunar nokkru lengur, en ýmsir höfðu þá sýnt áhuga á byggingu félagsheimils í Varmahlíð.

Eigendur hússins voru í upphafi Akrahreppur 15%, Seyluhreppur 60%, Ungmennafélagið Fram 15%, Kvenfélag Seyluhrepps 5% og Karlakórinn Heimir 5%. Síðar eignaðist Ungmennafélagið Æskan 3% eignarhlut en eignarhlutur U.m.f. minnkaði sem því nam.

Miðgarður var vígður 15.ágúst 1967 og var byggingarkostnaður þá kominn í 9,5 milljón króna, en kostnaðurinn varð talsvert meiri þegar upp var staðið. Byggingunni bárust ýmsar gjafir á byggingatímanum, þ.á m. vegleg dánargjöf Gísla Stefánssonar í Mikley.

Miðgarður var notaður til fjölbreyttrar starfsemi. Varmahlíðarskóli notaði húsið sem íþróttahús til ársins 1995 og yngstu bekkjum skólans var einnig kennt í húsinu til 1990. Þá var húsið félagsheimili Karlakórsins Heimis og Rökkurkórsins, en landsþekkt var húsið fyrir þau fjölmörgu sveitaböll, sem haldin voru í húsinu. Árshátíðir, söngskemmtanir, leiksýningar og aðar skemmtanir voru iðulega haldnar í húsinu og það sinnti hlutverki sínu sem menningarhús fyrir Skagfirðinga um áratuga skeið, einkum þar sem ekki var byggt stórt félagsheimili á Sauðárkróki og því var oft leitað fram í Miðgarð, þegar mikið lá við.

 

Heimild: Byggðasaga Skagfirðinga III bindi, bls. 230-231.

Svæði

Menningarhúsið Miðgarður   |   tenorslf@gmail.com   |   Sími: 894 3113