Stefánsstofa

Ákveðið var að helga ákveðið rými í húsinu Stefáni Islandi ópersöngvara. Sett hefur verið upp lítil sýning með ljósmyndum og munum úr sýningum sem Stefán tók þátt í, auk málverka, standmyndar af Stefáni og upplýsinga um söngvarann. Sýningin var hönnuð og sett upp af Jóni Þórissyni leikmyndahönnuði í samstarfi við Héraðsskjalasafn Skagfirðinga, en ýmis gögn um Stefán eru varðveitt á safninu.

Stefán Guðmundsson Islandi  1907 - 1994

Stefán Guðmundsson fæddist í Krossanesi í Skagafirði, sonur Guðmundar Jónssonar vinnumanns og Guðrúnar Stefánsdóttur. Stefán vakti ungur athygli sveitunga sinna fyrir bjarta og hreina tenórrödd. Sumarið 1926 hleypti hann heimdraganum og fór til Reykjavíkur, þar sem hann stundaði söngnám og söng í Karlakór Reykjavíkur.

Árið 1929 bauðst Richard Thors til að kosta hann til náms á Ítalíu og hóf Stefán nám í Mílanó 1930, lengst af hjá barýtonsöngvaranum Ernesto Caronna. Frumraun sína á óperusviði þreytti Stefán í Flórens, þann 12. febrúar 1933, sem Cavaradossi í Toscu eftir Puccini. Fram til ársins 1935 söng hann við ítölsk óperuhús, og tók sér nafnið Islandi, enda föðurnafnið óþjált fyrir Ítali.

Vorið 1938 söng Stefán Pinkerton í Madama Butterfly á sviði Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn og hlaut mikið lof fyrir. Síðan má segja að það svið hafi verið hans heimahöfn, uns hann fluttist alkominn heim til Íslands 1966 og sneri sér að söngkennslu.

Hann var fastráðinn við leikhúsið 1940 og útnefndur Konunglegur hirðsöngvari 1949, enda í fremstu röð söngvara hússins, danir bættu um betur og sæmdu hann Dannebrogsorðunni 1960. Stefán tók þátt í fyrstu íslensku óperuuppfærslunni, Rigoletto í Þjóðleikhúsinu 1951. Hann varð riddari Hinnar íslensku fálkaorðu 1940, stórriddari 1952.

 

Svæði

Menningarhúsið Miðgarður   |   tenorslf@gmail.com   |   Sími: 894 3113