Fréttaskot frá Menningarhúsinu Miðgarði

Þá er þorrinn liðinn og ýmislegt hefur verið um að vera í Menningarhúsinu Miðgarði. Þar má helst nefna nokkur þorrablót þar sem sveitungar skemmtu sér með mat, drykk, söng og dansi ásamt því að gera grín að sjálfum sér og öðrum. Þá var haldið upp á 100 ára kosningarrétt kvenna en það var Samband skagfirskra kvenna sem stóð fyrir því. Á dagskránni voru fyrirlestrar, gamanmál, ljósmyndasýning og söngur. Eldri nemendur Varmahlíðarskóla endursýndu söngleikinn „Footloose“ og Tónlistarskóli Skagafjarðar hélt tónleika í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá því að tónlistarskólinn var stofnaður.

 Kvennakórinn Sóldís byrjaði Góu með frábærum tónleikum á konudaginn auk þess að bjóða upp á girnilegt kaffihlaðborð.

 Aðsókn á viðburði hefur verið góð undanfarið og nú er um að gera að halda því áfram þar sem ýmislegt spennandi er á dagskránni framundan.

 Framundan í Menningarhúsinu Miðgarði eru meðal annars „Söngperlur Vilhjálms og Ellýjar Vilhjálms“ í flutningi Karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps. Kiwanisklúbburinn Drangey heldur Mottumarsskemmtun þar sem þeir ætla að afhenda Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki ný speglunartæki. Fram koma á skemmtuninni Karlakórinn Heimir, Álftagerðisbræður, Rökkurkórinn og Kvennakórinn Sóldís. Veitingar verða í boði nokkurra kvenfélaga í Skagafirði. Leiksýning yngri nemenda Varmahlíðarskóla. Einnig eru fleiri skemmtanir á döfinni sem ekki er hægt að nefna strax. Allt þetta að ógleymdu fundarhaldi og hefðbundnum kóræfingum. Það er því um að gera að fylgjast með á facebook síðu Menningarhússins Miðgarðs þar sem allir viðburðir verða kynntir hver fyrir sig. 


Athugasemdir

Svæði

Menningarhúsið Miðgarður   |   tenorslf@gmail.com   |   Sími: 894 3113