Uppselt er orðið á kvöldtónleika Jólin Heima sem fram fara þann 6. desember í Menningarhúsinu Miðgarði í Varmahlíð. Tónleikahaldarar hafa því dottið niður á þá snilldarhugmynd að bæta við aukatónleikum og hefjast þeir kl. 17:00 og að sjálfsögðu verður sama sjóið í boði á aukasýningunni – full keyrsla og allir í jólastuði!
Jólin Heima er orðinn fastur liður í aðventustemningunni í Skagafirði. Ef Feyki bregst ekki minnið þá er þetta sjötta árið í röð sem boðið er upp á þessa einstöku jólalagaveislu.
Það er einvalalið skagfirskra tónlistarmanna sem kemur fram, syngur og leikur. Það er því heldur betur kominn reynsla á þennan hóp, unga fólkið orðið enn kraftmeira og reynslunni ríkara, og er óhætt að fullyrða að það verður enginn svikinn af því að mæta á Jólin Heima í ár frekar en árin þar á undan.
Söngurinn mun berast frá raddböndum Eysteins Ívars, Gunnars Hrafns, Sigvalda Helga, Inga Sigþórs, Malenar, Valdísar, Bergrúnar Sólu, Róberts Smára, Emelíönu Lillýjar og Heiðdísar.
Athugasemdir