Við þökkum norðlensku tenórunum kærlega fyrir komuna um síðustu helgi. Um 200 manns komu og hlustuðu á þessa snillinga og óhætt að segja að allir hafi farið út með bros á vör eftir að hafa hlýtt á þessa miklu söngveislu.
Við skiptum algjörlega um gír næstu helgi, þegar "Lúðar og létt tónlist" verður í Menningarhúsinu Miðgarði. Lúðar og létt tónlist er stórskemmtilegt skemmtikvöld þar sem grínistar og tónlistarmenn láta móðinn mása í tali og tónum. Um er að ræða hina einu sönnu Hvanndalsbræður sem hafa aldrei verið eldri og sjaldan skemmtilegri, ber svo að nefna Sólmund Hólm grínista, útvarpsstjörnu og eftirhermu og síðast en ekki síst Gísla Einarsson. Bræðurnir frá Hvanndal munu flytja nokkur af sínum þekktari lögum í bland við nýtt efni og fjölmiðlafríkin Sólmundur og Gísli munu reita af sér brandara og ólíklegt er að Rögnvaldur Gáfaði geti þagað heila kvöldstund. Ekki er ósennilegt að hópurinn muni svo blandast saman í eitt stórt brandaraband þegar líður á kvöldið.
Já, þetta verður eitthvað!
Miðasala er við innganginn og miðaverð er 3.900 kr.
Skemmtunin hefst kl. 21.00
Athugasemdir